Virkni- og starfsendurhæfingarúrræði

Vinnumálastofnun Suðurnesjum

Launafólk og sjálfstætt starfandi einstaklingar á aldrinum 16–70 ára sem eru atvinnulausir geta skráð sig hjá Vinnumálastofnun og átt rétt á atvinnuleysisbótum, að því tilskildu að hafa áunnið sér tryggingarétt og uppfylli ákveðin skilyrði. Vinnumálastofnun býður upp á fjölbreytt úrræði fyrir atvinnulausa

Vinnumálastofnun er með útibú á Suðurnesjum, í Krossmóa 4a á 2. hæð. Sími: 515-4800. Netfang: sudurnes@vmst.is. Facebook: https://www.facebook.com/vinnumalastofnun.sudurnesjum

 

VIRK- Starfsendurhæfingarsjóður

Þjónusta VIRK er fyrir einstaklinga sem búa við skerta starfsgetu vegna heilsubrests og stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði. Til að eiga rétt á þjónustu þarf einstaklingur að vera með vottaðan heilsubrest frá lækni.

Tilgangur þjónustu VIRK er að aðstoða fólk við að komast aftur í vinnu. Um er að ræða markvissa ráðgjöf sem snýr að starfsendurhæfingu og krefst fullrar þátttöku viðkomandi einstaklings. Þjónustan er ferli sem felur í sér greiningu á stöðu og möguleikum eftir verkferlum VIRK.
Á vegum VIRK starfa sérhæfðir ráðgjafar í starfsendurhæfingu sem eru staðsettir hjá stéttarfélögum víða um land.  VIRK starfar einnig í nánu samstarfi við stéttarfélög, atvinnurekendur, ýmsa þjónustuaðila í starfsendurhæfingu og stofnanir velferðarkerfisins.
Þjónusta VIRK er einstaklingum að mestu að kostnaðarlausu.
Fljótlega eftir að einstaklingur hefur þjónustu hjá VIRK er mál hans tekið fyrir af þverfaglegu teymi til að tryggja sem besta þjónustu og setja upp einstaklingsmiðaða áætlun til starfsendurhæfingar. Í framhaldi er sett upp einstaklingsmiðuð áætlun til starfsendurhæfingar. Í þverfaglegu teymi starfa m.a. læknar, sjúkraþjálfarar, sálfræðingar, iðjuþjálfar og félagsráðgjafar allt eftir þörfum hvers og eins.

VIRK ráðgjafar á Suðurnesjum:

Elfa Hrund Guttormsdóttir. Stéttarfélög á Reykjanesi. elfa.virk@vsfk.is. 421-3050.
Eyrún Jana Sigurðardóttir. Stéttarfélög á Reykjanesi. eyrun.virk@vsfk.is. 421-3050.
Ingibjörg Erlendsdóttir. Stéttarfélög á Reykjanesi. ingibjorg.virk@vsfk.is. 421-3050.

 

Samvinna starfsendurhæfing

Samvinna starfsendurhæfing sérhæfir sig í starfsendurhæfingu með einstaklingum sem vegna veikinda, slysa og félagslegra erfiðleika eru að vinna að endurkomu út á vinnumarkaðinn. Þátttakendur eru einstaklingar sem eru á örorku-/ endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum og fólk sem er á bótum hjá svæðisvinnumiðlun eða sveitarfélagi. Þjónusta Samvinnu nýtist þeim einstaklingum sem vilja á markvissan hátt vinna að því að breyta stöðu sinni og stefna út á vinnumarkaðinn á ný.

Endurhæfingin er einstaklingsbundin og tekur mið af þörfum einstaklingsins. Um er að ræða námstengda endurhæfingu og heldur Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum utan um þann þátt og fer kennslan fram í húsnæði MSS. Auk þess er boðið upp á fjármálaráðgjöf, sálfræðistuðning, hópefli, sjálfsstyrkingu, líkamsþjálfun og ýmsa aðra sérsniðna meðferð eða ráðgjöf. Þátttakendur fara auk þessa í starfsþjálfun í fyrirtækum á Suðurnesjum.

Frekari upplýsingar um þjónustu Samvinnu starfsendurhæfingar gefa:
R. Helga Guðbrandsdóttir þroskaþjálfi í síma 421-7500/412-5960 eða rhelga@mss.is
María Rós Skúladóttir félagsráðgjafi í síma 421-7500/412-5962 eða maria@mss.is
Rannveig Sigríður Ragnarsdóttir félagsráðgjafi í síma 421-7500/412-5961 eða rannveig@mss.is

 

Virkjun mannauðs og velferðar

Virkjun er miðstöð fyrir einstaklinga sem eru án atvinnu, öryrkja, eldri borgara og aðra þá sem hafa áhuga á starfseminni. Boðið er upp á úrval námskeiða og fræðslu, uppákomur og fleira, sem er að mestu leyti í umsjón sjálfboðaliða. Lögð er áhersla á að virkja einstaklinga og þá styrkleika sem þeir búa yfir. Virkjun býður einnig upp á Al-Anon fundi. Virkjun er opin alla virka daga klukkan 8.00–16.00.

 

Fjölsmiðjan á Suðurnesjum

Fjölsmiðjan á Suðurnesjum er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á krossgötum á aldrinum 16–24 ára sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu. Fjölsmiðjan er vinnusetur og felst starfsemi hennar einkum í framleiðslu vara, faglegri verkþjálfun og ýmiss konar þjónustu. Ungmennum er hjálpað við að finna sér farveg í lífinu og byggja sig upp fyrir framtíðina. Sækja má um í Fjölsmiðjunni með því að hafa samband við forstöðumann en einnig komast einstaklingar inn í gegnum félagsþjónustu Reykjanesbæjar eða Vinnumálastofnun.

 

88 Húsið

88 húsið er menningarmiðstöð fyrir 16 ára og eldri í Reykjanesbæ og var tekin í notkun í janúar 2004. Starfsemin í húsinu er margs konar og þar er t.d. kaffihús, þar sem gestir geta sest og lesið blöð og tímarit og sopið á fríu kaffi eða djús. Einnig er þar tölvuver með fjórum tölvum, snókerborð og borðtennisborð, píluspjöld og breiðtjaldssjónvarp með þægilegri áhorfsaðstöðu. Í húsinu, sem er þrjár hæðir, er fundarherbergi til afnota fyrir félög og klúbba.

 

Hjálpræðisherinn

Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ er með fjölbreytt og skemmtilegt starf og allir eru velkomnir.  Á dagskrá er meðal annars prjónahópur, krakkadagar og unglingakvöld.

 

Rauði Krossinn – Suðurnesjadeild

Hægt er að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum. Nánari upplýsingar um starfið á Suðurnesjum er hægt að fá í síma 420 4700 og með því að senda póst á netfangið sudredcross@sudredcross.is.

 

Félag eldri borgara á Suðurnesjum FEB

Félag eldri borgara á Suðurnesjum er frjáls félagsskapur fyrir 60 ára og eldri. Allt starf er unnið af félagsmönnum í sjálfboðavinnu. Þjónustumiðstöðin á Nesvöllum er félagsmiðstöð Félags eldri borgara (FEB) og er dagskrá þess unnin af félaginu. Boðið er upp á tómstundastarf við allra hæfi.
Formaður FEBS er Sigurður Jónsson sími: 847-2779

 

Kirkjustarf

Í sumum kirkjum á Suðurnesjum er ýmis áhugaverð starfsemi í gangi sem stuðla að virkni einstaklinga. Sem dæmi má nefna að í Grindavíkurkirkju eru ýmis námskeið í boði og í Njarðvíkurkirkju eru spilakvöld og kirkjukór. Hægt er að hafa samband við kirkjurnar til að sjá hvað er í boði.

 

Hæfingarstöðin

Markmið hæfingar er að auka hæfni fatlaðs fólks til starfa og að taka þátt í daglegu lífi. Í hæfingu eru þjónustunotendur búnir undir að takast á við viðfangsefni utan heimilis sem og störf á almennum vinnumarkaði eða í verndaðri vinnu.
Sótt er um þjónustu Hæfingarstöðvarinnar hjá Vinnumálastofnun.

Hæfingarstöðin er staðsett að Keilisbraut í Reykjanesbæ, sími 420-3250.