Önnur aðstoð

Sálgæsluþjónusta presta

Sálgæsluþjónusta presta er öllum opin. Íbúar geta leitað til þess prests sem þeir vilja til að létta á hjarta sínu óháð búsetu. Sumir vita ekki hvar skal byrja þegar þeir takast á við erfiðleika í lífinu. Oft er gott að byrja hjá prestinum, þröskuldurinn er lágur og viðtalið kostar ekkert. Prestur getur svo bent á aðra fagaðila sé talin þörf á því.

 

Lundur – forvarnarfélag Reykjanesbæ

Markmið Lundar með þessu starfi er að styðja við bakið á þeim sem eru að fara í meðferð vegna neyslu áfengis og fíkniefna, eða eru að koma úr henni. Einnig leggjum við mikið kapp á að hjálpa aðstandendum þeirra, en þeir þurfa ekki síður á aðstoð að halda vegna þess alvarlega ástands sem neyslunni fylgir. Fram að þessu hefur fólk sem lendir í þessari ógæfu þurft að sækja alla aðstoð til Reykjavíkur og hafa margir einfaldlega ekki tök á því vegna ýmissa aðstæðna. Það hefur því miður oft orðið mörgum að falli.

Hægt er að hafa samband í síma 772-5463 eða á netfangið lundur@mitt.is.

 

AA samtökin

AA samtökin eru félagsskapur karla og kvenna sem samhæfa reynslu sína, styrk og vonir svo að þau megi leysa sameiginlegt vandamál sitt og séu fær um að hjálpa öðrum frá áfengisbölinu.

Til þess að gerast AA félagi þarf aðeins eitt; Löngun til að hætta að drekka. Inntöku eða félagsgjöld eru engin, en með innbyrðis samskotum sjáum við okkur efnalega farborða. AA samtökin eru sjálfstæð heild og óháð hvers kyns félagsskap öðrum. Þau halda sig utan við þras og þrætur og taka ekki afstöðu til opinberra mála.

Höfuðtilgangur þeirra er að vera ódrukkin og að styðja aðra alkóhólista til hins sama.
Á Suðurnesjum eru fundir í Keflavík og Grindavík, hægt er að finna fundi hér: http://www.aa.is/aa-fundir