Þunglyndi

Þunglyndi (e. depression) er geðröskun sem hefur áhrif á hugsun, líðan og hegðun. Það einkennist meðal annars af depurð, gleðileysi, áhugaleysi og þreytu. Allir geta fengið þunglyndi og getur það komið fram hvenær sem er á lífsleiðinni. Þunglyndi er röskun sem kemur venjulega fram í lotum, þar sem einkenni eru til staðar í afmarkaðan tíma en svo tekur við einkennalítið eða einkennalaust tímabil. Þegar fólk hefur einu sinni upplifað þunglyndi eru auknar líkur á því að það muni aftur fara í þunglyndislotu, þó það sé ekki víst að það gerist aftur. Það er mikilvægt að leita sér aðstoðar til að læra að takast á við þunglyndi.

Þegar einstaklingur missir vinnu eða missir ástvin er eðlilegt að geðið þyngist og lundin með. Slík viðbrögð teljast eðlileg. Samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu er talið að 1 af hverjum 5 upplifi depurð eða þunglyndi einhvern tíman á ævinni. Á Íslandi þjást 12-15 þúsund manns af þunglyndi á hverjum tíma svo dæmi sé tekið. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telur þunglyndi vera fjórða stærsta heilbrigðisvandamál heimsins og að það virðist fara vaxandi. Rannsóknir benda til þess að konum sé hættara við að þróa með sér þunglyndi en karlar.

Helstu einkenni þunglyndis eru:

  • Þreyta og / eða líkamlegir verkir
  • Skortur á frumkvæði
  • Erfiðleikar með að taka ákvarðanir
  • Pirringur og reiði
  • Svefntruflanir (vansvefn eða ofsvefn)
  • Breytingar á matarlyst
  • Breytingar á kynþörf
  • Sjálfseyðandi hegðun
  • Sjálfsvígshugsanir / sjálfsvígsatferli

Tvö megineinkenni þunglyndis eru niðurdregið skap mesta hluta dagsins og minni áhugi/ánægja á hlutum sem áður veittu áhuga/ánægju. Annað eða bæði þessara einkenna þurfa að vera til staðar í a.m.k. tvær vikur samfleytt til að einstaklingur geti greinst með þunglyndi.

Engin ein skýring virðist vera á þunglyndi, heldur er líklegt að um samspil margra þátta sé að ræða. Sálfræðilegir þættir, umhverfisþættir, líkamlegir sjúkdómar og líkamlegt ástand, erfðir, streita, aukaverkanir lyfja, aðrar geðraskanir og vímuefnaneysla eru þeir þættir sem geta haft áhrif á hvort þunglyndi þróast.

Meðferðir við þunglyndi eru árangursríkar og geta veitt góðan bata. Rannsóknir benda til að blönduð meðferð, þ.e. lyfja og hugræn atferlismeðferð skili hvað bestum árangri.

Hægt er að fá aðstoð vegna þunglyndis m.a. á Landspítalanum. Fleiri úrræði á Suðurnesjum má finna hér og fleiri úrræði á Höfuðborgarsvæðinu má finna hér.