Átraskanir

Átraskanir einkennast af alvarlegum truflunum á matarvenjum.

Þær þróast oftast í kjölfar megrunarkúra þar sem fólk ætlar í fyrstu að losa sig við nokkur kíló eða fer hreinlega í öfgakennda megrun með því að svelta sig eða losa sig við mat á annan hátt.

Slíkir kúrar geta endað í vítahring þar sem einstaklingnum finnst hann aldrei nógu léttur og missir sjónar á hvað er eðlileg líkamsþyngd og eðlileg máltíð.

Mataræðið einkennist oft af litlu, einhæfu og fitusnauðu fæði. Einnig getur verið um að ræða alvarlegt ofát, jafnvel í köstum þar sem einstaklingurinn missir stjórn á því magni sem hann borðar en losar sig síðan við fæðuna á eftir, t.d. með því að framkalla uppköst.

Ofhreyfing eða óhófleg líkamsrækt er algeng átröskunarhegðun.

Átröskunum fylgir andleg vanlíðan, kvíði og þunglyndi og mikil óánægja með líkamlegt útlit. Manneskjan verður heltekin af hugsunum um mat og þyngd og hræðslu við að borða.

Átraskanir eru sjúkdómur en ekki hegðunarvandamál og sá sem veikist þarf að fá meðferð.

Orsakir eru margvíslegar, bæði líffræðilegar og sálfélagslegar og meðferð getur verið margþætt. Ef gripið er nógu snemma inn í sjúkdómsganginn með ráðgjöf og stuðningi má oft hindra að sjúkdómurinn þróist á alvarlegt stig.

Þekktustu átraskanirnar eru:

  • Lystarstol (anorexia nervosa)
  • Lotugræðgi (bulimia nervosa)
  • Lotuofát (binge eating disorder) hefur nýlega verið skilgreint sem sjúkdómur og veldur oft offitu
  • Sumar átraskanir eru “blandaðar” með einkennum bæði frá lystarstoli og lotugræðgi og eru kallaðar óskilgreindar átraskanir

Sótt þann 2. mars 2019 af https://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/fraedsluefni/atroskun-fullordinna/

Einnig má finna ítarlegri upplýsingar um átraskanir og meðferð á tenglingum hér fyrir ofan.