Athyglisbrestur og ofvirkni

Athyglisbrestur og ofvirkni (e. attention deficit hyperactivity disorder, AHDH) er taugaþroskaröskun sem kemur yfirleitt snemma fram, eða fyrir 7 ára aldur, og getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. Athyglisbrestur og ofvirkni er algerlega óháð greind.

Þrír meginflokkar einkenna:

  • Athyglisbrestur kemur fram í því að barnið eða unglingurinn á erfitt með að einbeita sér að viðfangsefnum sínum, sérstaklega ef verkefnið krefst mikillar einbeitingar. Heimanám er þeim oft mjög erfitt.  Þau eiga erfitt með að koma sér að verki, eru auðtrufluð og oft hvarflar athyglin í miðju kafi að einhverju öðru og verkefnið gleymist. Athyglisbresti fylgir yfirleitt gleymska og hlustunin er ekki góð. Skipulagserfiðleikar eru nær alltaf fylgifiskar athyglisbrests og oft er tímaskyni áfátt. Þó er athyglisbresturinn ekki alltaf til staðar og ef verkefnið er nógu spennandi og tilbreytingaríkt, t.d. tölvuleikir, getur komið fram nánast ofureinbeiting þannig að barnið dettur hreinlega úr sambandi við umhverfi sitt.
  • Hreyfióróleiki lýsir sér þannig að börnin eiga erfitt með að sitja kyrr. Þau iða í sæti og eru fiktin og stöðugt á ferð og flugi. Þau tala oft mikið og liggur oft hátt rómur. Hreyfióróleiki er oft mest áberandi á yngri árum. Hreyfióróleikinn er mest áberandi á yngri árum. Oft dregur úr einkennum hreyfióróleika á unglingsárunum en  í staðinn kemur innri órói.
  • Hvatvísi kemur þannig fram að börn eiga erfitt með að bíða, þau grípa fram í og ryðjast inn í leiki og samræður annarra. Þeim er hætt við að framkvæma og gera hluti án þess að hugsa um afleiðingar gerða sinna en það kemur þeim bæði í vandræði og hættu.

Mikilvægt er að hafa í huga að einkennin geta verið mismunandi og mismikil hjá ólíkum  einstaklingum og eru breytileg eftir aldri.

Áður fyrr var talið að ADHD hyrfi með aldrinum en rannsóknir hafa sýnt að svo er ekki. Nýjar erlendar fylgikannanir sýna að 50-70% þeirra sem greinast með ADHD í bernsku eru enn með einkenni á fullorðinsárum.

Hægt er að fá aðstoð vegna ADHD m.a. hjá ADHD samtökunum. Fleiri úrræði á Suðurnesjum má finna hér og fleiri úrræði á Höfuðborgarsvæðinu má finna hér.