Fíkn

Fólk notar áfengi og önnur vímuefni eða lyf af mörgum ástæðum. Talað er um vandamál þegar neysla áfengis, vímuefna og/eða lyfjaneysla er óviðeigandi, þ.e. endurtekin notkun til að upplifa vímu, fást við streitu, og/eða til að breyta eða forðast aðstæður sínar. Óviðeigandi notkun getur líka einkennst af því að nota lyfseðilskyld lyf á annan hátt en læknir mælir með. Talað er um fíkn þegar fólk getur ekki lengur haft stjórn á hvötinni til að nota vímuefni eða lyf þrátt fyrir neikvæðar afleiðingar neyslunnar.

Fíkn getur því verið bæði líkamleg og andleg. Þegar um líkamlega fíkn er að ræða hefur líkaminn vanist því að ákveðið efni sé til staðar, svo þegar neyslu efnisins er hætt eða neyslan minnkuð, koma fram fráhvarfseinkenni. Fólk myndar þol gagnvart efninu sem fíknin beinist að, svo að alltaf þarf meira og meira af efninu til að sömu áhrif komi fram.

Fíkn getur hins vegar einnig verið andleg. Líkaminn losar sig svo dæmi sé tekið við nikótín úr líkamanum á þremur dögum, en samt getur fólk barist við að hætta að reykja árum, jafnvel áratugum saman, án þess að ná að losa sig úr viðjum fíknarinnar. Ástæðan er sú að fólk notar oft hegðun eða efni til að róa tilfinningar sínar og losa um streitu, og ef ekki er unnið með rót vandans og/eða að finna aðrar og hjálplegri leiðir til að ráða við tilfinningar sínar er oft erfitt að ráða niðurlögum fíknar.

Fíkn í áfengi og tóbak er algengust, enda um lögleg efni að ræða. Mörg önnur fíkniefni eru þekkt, sum ólögleg fíkniefni ekki ætluð til lækninga en önnur eru notuð við lækningar á ýmsum kvillum s.s. ADHD, verkjum, eða geðröskunum.

Fylgni er á milli fíknar og ýmissa annarra sjúkdóma. Fíkn er algengari meðal þeirra sem kljást einnig við aðrar geðraskanir, og á það bæði við geðrofssjúkdóma sem og þunglyndi og kvíðaraskanir.

Hægt er að fá aðstoð vegna fíknar m.a. á Landspítalanum og SÁÁ. Fleiri úrræði á Suðurnesjum má finna hér og fleiri úrræði á Höfuðborgarsvæðinu má finna hér.