Önnur aðstoð

Sálgæsluþjónusta presta

Sálgæsluþjónusta presta er öllum opin. Íbúar geta leitað til þess prests sem þeir vilja til að létta á hjarta sínu óháð búsetu. Sumir vita ekki hvar skal byrja þegar þeir takast á við erfiðleika í lífinu. Oft er gott að byrja hjá prestinum, þröskuldurinn er lágur og viðtalið kostar ekkert. Prestur getur svo bent á aðra fagaðila sé talin þörf á því. Kirkjur á Suðurnesjum eru til dæmis í Keflavík, Njarðvík og Grindavík.

AA samtökin

AA samtökin eru félagsskapur karla og kvenna sem samhæfa reynslu sína, styrk og vonir svo að þau megi leysa sameiginlegt vandamál sitt og séu fær um að hjálpa öðrum frá áfengisbölinu.

Til þess að gerast AA félagi þarf aðeins eitt; Löngun til að hætta að drekka. Inntöku eða félagsgjöld eru engin, en með innbyrðis samskotum sjáum við okkur efnalega farborða. AA samtökin eru sjálfstæð heild og óháð hvers kyns félagsskap öðrum. Þau halda sig utan við þras og þrætur og taka ekki afstöðu til opinberra mála.

Höfuðtilgangur þeirra er að vera ódrukkin og að styðja aðra alkóhólista til hins sama. Á Suðurnesjum eru fundir í Keflavík eru við Klapparstíg 7 og í Grindavík í Gömlu kirkjunni við Víkurbraut. Hægt er að skoða dagskrá funda hér: http://www.aa.is/aa-fundir.

Neyðarsími AA-samtakanna á Suðurnesjum er 777-5504.

Al anon

Al-Anon fjölskyldudeildirnar eru félagsskapur karla, kvenna og unglinga sem hafa orðið fyrir áhrifum af drykkju ættingja eða vinar. Al-Anon leiðin er sjálfshjálparaðferð byggð á tólf reynslusporum AA-samtakanna. Til þess að gerast félagi þarf aðeins eitt, að ættingi eða vinur hafi átt eða eigi í vanda vegna alkóhólisma.

Al-anon fundir í Keflavík eru í AA-húsinu við Klapparstíg 7.