Endurhæfing á Höfuðborgarsvæðinu

VIRK – starfsendurhæfingarsjóður

Þjónusta VIRK er fyrir einstaklinga sem búa við skerta starfsgetu vegna heilsubrests og stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði. Til að eiga rétt á þjónustu þarf einstaklingur að vera með vottaðan heilsubrest frá lækni.

Tilgangur þjónustu VIRK er að aðstoða fólk við að komast aftur í vinnu. Um er að ræða markvissa ráðgjöf sem snýr að starfsendurhæfingu og krefst fullrar þátttöku viðkomandi einstaklings. Á vegum VIRK starfa sérhæfðir ráðgjafar í starfsendurhæfingu sem eru staðsettir hjá stéttarfélögum víða um land.  Þjónusta VIRK er einstaklingum að mestu að kostnaðarlausu. Fljótlega eftir að einstaklingur hefur þjónustu hjá VIRK er mál hans tekið fyrir af þverfaglegu teymi til að tryggja sem besta þjónustu og setja upp einstaklingsmiðaða áætlun til starfsendurhæfingar. Í framhaldi er sett upp einstaklingsmiðuð áætlun til starfsendurhæfingar. Í þverfaglegu teymi starfa m.a. læknar, sjúkraþjálfarar, sálfræðingar, iðjuþjálfar og félagsráðgjafar allt eftir þörfum hvers og eins.

Opnunartími skrifstofu er alla virka daga frá 9:00 til 16:00 (15:00 á föstudögum).

Sími: 535-5700

Heimilisfang: Guðrúnartún 1, 105 Reykjavík.

Netfang: virk@virk.is

Reykjalundur – geðsvið

Hjá geðheilsuteymi fer fram endurhæfing vegna þunglyndis og kvíða, en oft er þó um fjölþætt vandamál að ræða, þ.e. líkamleg, andleg og félagsleg. Endurhæfing er hluti af bataferlinu og ber einstaklingurinn sjálfur ábyrgð á að fylgja henni eftir meðan á dvöl stendur

Endurhæfingin er sniðin að þörfum hvers og eins og því nokkuð mismunandi milli einstaklinga. Allir fá reglubundin viðtöl, sem geta verið stuðningsviðtöl, hugræn atferlismeðferð eða annað. Að höfðu samráði metur starfsfólk teymisins í hverju tilviki hvað á best við.

Símatími geðheilsuteymis er á miðvikudögum frá 09:30 til 10:30. Þar má fá upplýsingar varðandi biðlista og/eða koma á framfæri upplýsingum sem gætu skipt máli varðandi endurhæfinguna.

Sími: 585-2000

Heimilisfang: Reykjalundur, 270 Mosfellsbæ

Netfang: reykjalundur@reykjalundur.is

Hringsjá

Markmið Hringsjár er að veita náms- og starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga, 18 ára og eldri sem vegna sjúkdóma, slysa, fötlunar eða annarra áfalla þurfa á endurhæfingu að halda til að takast á við nám og/eða að stunda atvinnu á almennum vinnumarkaði. Námið hentar einnig þeim sem hafa litla grunnmenntun eða sértæka námserfiðleika. Stefnt er að því að þeir sem útskrifast frá Hringsjá séu færir um að takast á við nám í almennum framhaldsskólum og finna störf við hæfi á almennum vinnumarkaði.

Endurhæfingin felst í einstaklingsmiðuðu námi í formi styttri námskeiða eða fullu einingarbæru námi með sérhæfðri ráðgjöf og stuðningi.

Opnunartími Hringsjár er mánudaga-fimmtudags frá 8:30 til 12:00 og 12:30 til 15:30, en á föstudögum frá 8:30 til 12:00.

Sími: 510-9380

Heimilisfang: Hátún 10d, 105 Reykjavík

Netfang: hringsja@hringsja.is

Janus endurhæfing

Hjá Janusi endurhæfingu fer fram starfs- og atvinnuendurhæfing. Markmið starfseminnar er að aðstoða fólk til að komast á vinnumarkaðinn og fyrirbyggja varanlega örorku.

Innan Janusar endurhæfingar eru 4 brautir; Skólabraut, Heilsubraut, Iðjubraut og Vinnubraut. Þessar brautir gegna mismunandi hlutverkum og gera mismunandi kröfur til þátttakandans. Möguleiki er á að færa sig á milli brauta eftir því sem við á og árangur næst í endurhæfingunni. Þessi fjölbreytni eykur möguleika þátttakandans á því að ná tilætluðum árangri.

Hver þátttakandi fær tengilið sem er fagaðili og á bak við hann er teymi sérfræðinga. Tengiliðurinn og þátttakandinn gera einstaklingsmiðaða áætlun varðandi endurhæfinguna sem tekur mið af markmiðum og þörfum þátttakandans. Þátttakandinn setur sér skammtíma markmiði varðandi endurhæfingu sína í samvinnu við tengilið sinn  og nýtur stuðning teymis Janusar endurhæfingar til að fylgja þeim eftir.

Janus endurhæfing er opin alla virka daga milli 8:00-16:00. Síminn er opinn virka daga frá 8:00 til 12:00 og 13:00 til 15:00.

Sími: 514-9175

Heimilisfang: Skúlagata 19, 101 Reykavík

Tölvupóstur: janus@janus.is