Kvíði

Kvíði (e. anxiety) er eðlileg tilfinning sem allir upplifa einhvern tímann, það er enginn algjörlega ókvíðinn. Þó að kvíði sé fyrst og fremst eðlileg tilfinning og geti verið mjög gagnlegur þá getur hann líka verið vandamál. Þegar kvíði er of mikill, kemur oft upp eða kemur fram í óviðeigandi aðstæðum þá er hann hættur að gagnast okkur.

Kvíði getur verið af ýmsum toga, allt frá því að vera tengdur ákveðnum atriðum t.a.m. dýrategund eða aðstæðum, út í að hafa óskilgreindar og jafnvel óvissar forsendur. Kvíðinn hefur líka mismunandi birtingarmyndir, þó að ákveðin atriði, bæði líkamleg og andleg, séu sameiginleg.

Eitt það módel sem notað hefur verið til skýringar á kvíða er að hann sé ofþroskað „fight or flight“ viðbragð, sem hélt lífinu í okkur meðan tilvist okkar var ógnað af ytri aðstæðum. Kvíðinn vaknar vegna þess að viðkomandi upplifir líkamleg viðbrögð og túlkun á þeim sem hættu. Vissulega eru til aðrar kenningar, en þessi er nokkuð lífseig.

Kvíði er einnig missterkur. Afskaplega fáttítt er að einstaklingur hafi ekki fundið til kvíða einhvern tíma á lífsleiðinni. Mildur kvíði hjálpar okkur við einbeitingu, dómgreind og að ná árangri. Þegar kvíðinn magnast verður hann hins vegar óhjálplegur og getur orðið verulega hamlandi.

Kvíði getur verið af mismunandi toga, eins og fram kom hér að ofan. Einstaklingur sem finnur fyrir kvíðaónotum vegna þess að hann á að halda ræðu fyrir framan fullt af fólki er ekki haldinn kvíðaröskun. Þegar rætt er um kvíða þá er miðað við viðvarandi ástand en ekki tilfallandi vanlíðan.

Almenn einkenni kvíða eru:

  • Hita- eða kuldatilfinning
  • Tilfinning að vera fjarlægur, dofinn eða tilfinningadauður
  • Vöðvaspenna og vöðvaverkir
  • Svitna í lófum
  • Ör og grunnur andardráttur
  • Svimi
  • Eirðarleysi og sálræn spenna
  • Kyngingarerfiðleikar

Vissulega eru fleiri einkenni og oft samofin, t.a.m. þá upplifa einstaklingar sem eru með kvíðaröskun einnig einkenni frá ósjálfráða taugakerfinu, t.d. hjartsláttarköst, svita, skjálfta, munnþurrk og tíð þvaglát. Önnur líkamleg einkenni geta verið andnauð, köfnunartilfinning, þrýstingstilfinning fyrir brjósti, ógleði og niðurgangur. Sálræn kvíðaeinkenni eru svimi, ör hugsun og atferli, óraunveruleikatilfinning, ótti við að missa vitið og ótti við að deyja. Önnur einkenni geta verið erfiðleikar við einbeitingu, pirringur og svefnerfiðleikar.

Ef kvíði er farinn að hafa mikil áhrif á lífsgæði fólks, til dæmis ef fólk sleppir því að gera hluti sem það vill gera vegna kvíða, er hugsanlegt að um kvíðaröskun sé að ræða. Kvíðaröskun er í raun önnur leið til að segja að kvíðinn sé orðinn það mikill og hamlandi að einstaklingur þurfi á aðstoð að halda til að takast á við hann.

Kvíði gerir almennt fyrst vart við sig á táningsárunum fram til hálfþrítugs. Talið er að allt að 12% þjóðarinnar þjáist af kvíðaröskun á ári hverju. Konum er hættara við kvíðaröskun en körlum. Margir sem kljást við síendurtekinn kvíða gera það án þess að leita sér hjálpar. Þær meðferðir sem í boði eru vegna kvíðaraskana hafa skilað góðum árangri. Því er það miður og vekur í raun furðu að ekki fleiri skuli leita sér aðstoðar vegna þessa vanda, sérstaklega með hliðsjón af því hve neikvæð áhrif á lífsgæði fólks kvíðinn hefur.

Til eru afbrigði af kvíðaröskunum, m.a. afmörkuð fælni, félagsfælni, almenn kvíðaröskun og felmtursröskun.

Hugræn atferlismeðferð (e. cognitive behavioral therapy) hefur reynst árangursrík í meðferð kvíðaraskana. Meðferðarformið  hefur verið í örum vexti og útbreiðslu síðasta aldarfjórðunginn og byggist á fjölda árangursrannsókna. Hugræn atferlismeðferð byggist á því grundvallaratriði að hugsun okkar hefur mikil áhrif hvernig okkur líður og hvernig við hegðum okkur.

Hægt er að fá aðstoð vegna kvíða m.a. á kvíðameðferðastöðinni og Landspítalanum. Fleiri úrræði á Suðurnesjum má finna hér og fleiri úrræði á Höfuðborgarsvæðinu má finna hér.