Almenn kvíðaröskun

Almenn kvíðaröskun (e. generalized anxiety disorder, GAD) einkennist af þrálátum áhyggjum af hinu og þessu, jafnvel því að hafa áhyggjur af áhyggjunum sjálfum. Fólk finnur fyrir a.m.k. þremur af eftirfarandi einkennum: Eirðarleysi, vöðvaspennu, pirringi, svefntruflunum og þreytu. Fólk á erfitt með að slaka á og er stöðugt áhyggjufullt.

Talið er að einstaklingar með almenna kvíðaröskun eigi erfitt með að þola óvissu. Þess vegna reyna þeir oft að skipuleggja hér um bil allt sem hægt er að skipuleggja og athuga endurtekið hvort allt sé ekki nákvæmlega eins og það á að vera. Áhyggjurnar auka óvissuna og óvissan eykur áhyggjurnar og þannig skapast vítahringur sem erfitt er að losna úr. Þegar fólk upplifir miklar og íþyngjandi áhyggjur er mikilvægt að leita sér aðstoðar fagaðila.

Ef einstaklingur hefur verið óhóflega kvíðin(n) eða áhyggjufull(ur) vegna margvíslegra málefna undanfarna sex mánuði eða á erfitt með að láta af áhyggjunum er mögulegt að um almenna kvíðaröskun sé að ræða. Sérstaklega ef vandinn er farinn að hafa veruleg áhrif á  líf og líðan viðkomandi.

Kvíðinn tengist a.m.k. þremur af eftirtöldum einkennum:

  • Eirðarleysi, eða að vera sífellt á tánum eða órólegur
  • Þreytist auðveldlega
  • Einbeitingarerfiðleikar eða að hugurinn verður tómur
  • Pirringur
  • Vöðvaspenna
  • Svefntruflanir (erfitt að sofna eða að halda svefni eða hvíldarlítill ófullnægjandi svefn)

Um það bil 3% fólks fær almenna kvíðaröskun einhverntímann á ævinni og helmingi algengara að konur séu þar á meðal. Kvíðinn er oft vangreindur þar til fólk leitar sér aðstoðar vegna afleiðinga kvíðans eins og líkamleg óþægindi er varða svefn og vöðvaspennu. Áhyggjurnar geta komið fram í áhyggjulotum þar sem fólk er í þungum þönkum frá nokkrum mínútum í allt að nokkrar klukkustundir, eða að fóllk upplifir sig áhyggjufullt almennt. Þótt fólk sé ekki undir sérstöku álagi geta áhyggjurnar verið meiri en aðstæður gefa tilefni til. Þá eiga áhyggjur það til að magnast upp, þannig að áhyggjur af einu máli geta leitt til óþægilegri og óþægilegri áhyggna. Áhyggjurnar beinast  oftast sérstaklega því sem skiptir fólki máli eins og ástvini, heilsu og framtíðinni.