Félagsfælni

Félagsfælni (e. social anxiety disorder) er viðvarandi og hamlandi ótti við að verða sér til skammar, niðurlægingar og minnkunar innan um annað fólk. Sá sem er félagsfælinn er viss um að aðrir séu að horfa og hugsa um hann. Sú vissa er einnig fyrir hendi að þessi athygli stafi af því hve klaufalegur, illa klæddur eða hverjir þeir aðrir gallar sem viðkomandi er viss um að einkenna sig valdi þessu. Félagsfælnir ímynda sér að allt hið versta hendi sig innan um fólk, sérstaklega ókunnuga og að þeim verði hafnað af öðrum.

Af þessum sökum forðast félagsfælnir aðstæður þar sem annað fólk er eða halda þær út með kvíðabeyg vegna áhyggna um álit annarra á sér. Fólk sem þjáist af félagsfælni er mjög meðvitað um það sem það gerir og segir.

Sumir með félagskvíða drekka áfengi eða neyta fíkniefna til að auðvelda félagsleg samskipti og geta jafnvel ekki mætt í partý án þess. Skammtímalausn í formi vímuefna lagar ekki félagsfælnina en getur leitt til enn fleiri vandamála og jafnvel þróast út í fíknivanda. Því ættu einstaklingar sem finna fyrir félagsfælni eða vægari kvíða í aðstæðum af þessu tagi að fylgjast vel með eigin neyslu og jafnvel draga úr eða hætta þar til þeir sigrast á félagsfælninni. Félagsfælni getur líka leitt til þunglyndis og þá er einnig mikilvægt að leita sér aðstoðar.

Líkamleg einkenni sem eru algeng í félagsfælni eru meðal annars að roðna, svitna, skjálfa eða stama. Algengt er að þessi líkamlegu einkenni ýti undir enn meiri kvíða því oft óttast fólk að aðrir munu taka eftir þeim og dæma það fyrir einkennin. Þessar áhyggjur eru oftast óraunhæfar og roðinn eða svitinn ekki nægur til að aðrir taki eftir því, auk þess sem flestir myndu ekki spá mikið í þessum líkamlegu einkennum ef þeir tækju eftir þeim. Í félagslegum aðstæðum geta einstaklingar með félagsfælni einnig upplifað mikið óöryggi eða að hugurinn tæmist. Fólk sem upplifir þessi einkenni og á erfitt í félagslegum aðstæðum, hvort sem þær eru margar eða fáar, ætti ekki að hika við að leita sér aðstoðar.

Félagsfælni er falið vandamál en talið er að hún sé þriðja algengasta geðröskunin. Talið er að um 12% Íslendinga glími við félagsfælni einhvern tíma á ævinni og minnihluti þeirra leitar sér hjálpar. Félagsfælni kemur oft í ljós og er greind þegar aðrar geðraskanir gera vart við sig eða þegar fólk leitar sér læknis vegna annarra kvilla. Rannsóknir benda til þess að meðferð sé árangursrík, en hún felst í því að draga úr kvíða og feimni og auka þar með lífsgæði viðkomandi.