Áfallastreituröskun

Flestir sem verða fyrir einhvers konar áfalli finna fyrir tímabundinni andlegri vanlíðan sem veldur þó ekki varanlegum skaða. Flestir ná að vinna sig úr vandanum og geta haldið áfram að lifa á svipaðan hátt og þeir gerðu fyrir áfallið.

Áfallastreituröskun (e. post traumatic stress disorder, PTSD), eða áfallastreita, birtist oftast eftir að einstaklingur hefur upplifað atburð sem ógnar lífi, heilsu eða öryggi. Viðbrögðin einkennast af skelfingu, hjálparleysi eða hryllingi. Eitt megineinkenni röskunarinnar er kvíði sem myndast í framhaldi af alvarlegu sálfræðilegu áfalli. Til að áfallaröskun sé greind sem geðröskun, en ekki sem tímabundin eðlileg viðbrögð, þurfa einkennin að hafa verið til staðar í a.m.k. 6 vikur. Í flestum tilfellum er meðferð árangursrík.

Einkenni sem fylgja oft áfallaröskun:

 • Stöðugar hugsanir um eða endurupplifun áfallsins
 • Martraðir og slæmir draumar
 • Hræðsla um að atburður endurtaki sig
 • Ofsafengin tilfinningaleg og líkamleg viðbrögð við atburðum og hlutum sem minna á áfallið
 • Fælni við allt sem minnir á áfallið
 • Skert minni og einbeiting
 • Tilfinningalegur doði
 • Styttri framtíðarsýn og hræðsla við að vona
 • Stöðug andleg og líkamleg spenna
 • Svefnörðugleikar
 • Pirringur og reiðiköst
 • Að vera í stöðugri viðbragðsstöðu

Einstaklingar með áfallastreituröskun leitast við að forðast allt sem minnir á áfallið svo sem hugsanir og tilfinningar tengdar áfallinu, tiltekna staði eða athafnir. Það endurupplifir atburðinn með einum eða öðrum hætti, fær martraðir eða sér hann ljóslifandi fyrir sér. Fólk fer yfirleitt í uppnám þegar eitthvað minnir það á atburðinn. Fólk verður daufara og áhugalausara en það á að sér og á almennt erfitt með að finna fyrir jákvæðum tilfinningum.  Það finnur hins vegar oft fyrir líkamlegri spennu, svefntruflunum, pirringi eða reiði, einbeitingarerfiðleikum, er eilíflega á varðbergi og því bregður auðveldlega. Það upplifir sig einangrað frá öðrum og á erfitt með að sjá framtíð sína fyrir  sér. Áfallastreituröskun getur leitt til þunglyndis og misnotkun vímugjafa.

Meðferðir við áfallastreituröskun hafa reynst árangursríkar. Hægt er að fá aðstoð vegna áfallastreituröskunar m.a. í EMDR stofunni og kvíðameðferðarstöðinni. Fleiri úrræði á Suðurnesjum má finna hér og fleiri úrræði á Höfuðborgarsvæðinu má finna hér.