Áráttu- og þráhyggjuröskun

Þráhyggju-árátturöskun (e. obsessive compulsive disorder, OCD) er geðröskun þar sem fólk fær endurteknar hugsanir (þráhyggjur) sem vekja upp óþægilegar tilfinningar eins og kvíða, ótta, samviskubit eða ógeðstilfinningu sem fólk síðan bregst við með því að framkvæma tiltekna hegðun (árátta).

Þráhyggjuhugsanir hafa þau áhrif á einstaklinginn að honum finnst hann verða að framkvæma vissar athafnir, sem teljast vera áráttuhegðun, til að tryggja öryggi sitt eða annarra. Áráttuhegðunin er framkvæmd til að minnka eða koma í veg fyrir kvíðatengdan atburð eða aðstæður. Þessar hugsanir og hegðan valda miklum óþægindum, kvíða og skömm.

Algengast er að þeir sem greinast með þráhyggju-árátturöskun séu með margar mismunandi birtingarmyndir og þemu í þráhyggjuhugsunum. Einnig er algengt að birtingarmyndin breytist með tímanum.

Áætlað er að 2-3% Íslendinga þjáist af áráttu- og þráhyggjuröskun. Algengast er að einkenni komi fyrst fram í bernsku eða á unglingsárum.

Áráttu- og þráhyggjuröskun einkennist oft af:

  • Síendurteknum og yfirþyrmandi kvíðatengdum hugsunum
  • Fólki finnst það nauðbeygt til að framkvæma ákveðnar athafnir, oft vegna ótta um að eitthvað slæmt gerist ef þær eru ekki framkvæmdar
  • Hugsunum um óhöpp
  • Félagsleg einangrun fylgir oft því að vera með áráttu og þráhyggjuröskun.

Meðferð gefur oft góðan árangur og dregur verulega úr þessum vanda einstaklinga. Hægt er að fá aðstoð vegna áráttu- og þráhyggjuröskun m.a. í kvíðameðferðarstöðinni. Fleiri úrræði á Suðurnesjum má finna hér og fleiri úrræði á Höfuðborgarsvæðinu má finna hér.