Ofsakvíði

Ofsakvíði eða felmtursröskun (e. panic disorder) er óskaplega óþægilegur og hamlandi kvilli sem einkennist meðal annars af hræðslu, hröðum hjartslætti, skelfingu, feigðartilfinningu og svima.

Um átta af hverjum fimm hundruð (1,6%) þjást af ofsakvíða einhvern tímann á ævinni, og þar af eru tvöfalt fleiri konur en karlar. Röskunin kemur yfirleitt fram snemma á fullorðinsárum, en getur einnig komið fram hjá börnum og eldra fólki. Sumir fá eitt kast yfir ævina og aðrir fá kast öðru hverju án þess að það hafi teljandi áhrif á daglegt líf þeirra.

Það kannast allir við að vera áhyggjufullir, taugastrekktir og kvíðnir af og til, en lögð skal áhersla á það að tilfinningarnar sem fylgja ofsakvíða eru af allt annarri styrkleikagráðu. Þær eru gjarnan svo yfirþyrmandi og ógnvekjandi að viðkomandi er sannfærður um að hann sé að deyja, missa vitið eða verða sér til ævarandi skammar, þótt í raun sé að sjálfsögðu lítil hætta á slíkum ógnar afleiðingum.  Þegar um eiginlega röskun er að ræða eru köstin hins vegar þrálát og regluleg og valda miklum þjáningum og félagslegum hömlum.

Horfurnar eru þó góðar, því meðferðir hafa reynst afar áhrifaríkar, og er því afskaplega mikilvægt að fólk sem þjáist af ofsakvíða leiti sér upplýsinga um vandann og nýti sér þær meðferðir sem eru í boði. ef meðferð er veitt nógu snemma má koma í veg fyrir að ofsakvíði nái efri stigum og víðáttufælni þróist.

Sum eða öll eftirfarandi einkenni koma fram í kvíðakasti:

 • Skelfing og vanmáttarkennd – tilfinning um að eitthvað hræðilegt sé að gerast.
 • Hraður hjartsláttur
 • Brjóstsviði
 • Svimi
 • Ógleði
 • Öndunarerfiðleikar
 • Doði í höndum
 • Roði og hiti í andliti eða hrollur
 • Tilfinning um að maður sé að missa sjónar á veruleikanum
 • Ótti við að glata sjálfsstjórn, missa vitið eða verða sér til skammar
 • Feigðartilfinning

Endurtekin ofsakvíðaköst valda gjarnan mikilli hræðslu við frekari köst, og líf einstaklingsins getur orðið undirlagt af ótta og kvíða inn á milli kastanna. Oft fælist fólk einnig þær aðstæður sem kvíðakast hefur orðið við og forðast þær í lengstu lög.