Geðhvörf

Geðhvörf (e. bipolar disorder), eða öðru nafni oflætis-þunglyndissjúkdómur (e. manic-depressive), einkennist ýmist af geðhæðar- eða geðlægðartímabilum (e. manic or depressive episodes). Sjúkdómurinn hamlar getu til eðlilegra athafna í daglegu lífi, truflar dómgreind eða leiðir til ranghugmynda. Sjúklingar fá ýmist einkenni oflætis eða þunglyndis, eða eingöngu einkenni oflætis. Langur tími getur liðið á milli geðsveiflna og á þeim tímabilum er einstaklingurinn eðlilegur á geði. Ef sjúklingurinn er án meðferðar má búast við 7-15 stórum sveiflum á meðalævi. Sumir veikjast þó aðeins einu sinni. Ólíkt þunglyndi, sem getur skotið upp kollinum hvenær sem er, láta geðhvörf nær alltaf fyrst kræla á sér hjá ungu fólki.

Oftast líður mislangur tími á milli oflætis og þunglyndis. Þetta er einstaklingsbundið en einnig hafa lyfjameðferð og umhverfisaðstæður áhrif á þunga veikindanna og hversu lengi þau vara. Sjúkdómurinn er algengur meðal þeirra sem búa yfir frjóu og kraftmiklu ímyndunarafli, t.d. meðal framkvæmda- og listafólks. Í uppsveiflu sjúkdómsins fær fólk aukinn innblástur og kraft í sköpun sína en oft getur sá hugsanastormur feykt einstaklingum út yfir landamæri raunveruleikans.

Sjálfsvígshlutfall einstaklinga með geðhvörf er hátt, eða um 18% og er það einn af niðurrífandi og neikvæðum þáttum sjúkdómsins.

Mismunandi undirflokkar

Nú til dags er geðhvörfum skipt í nokkra flokka, samkvæmt DSM greiningarkerfinu (e. Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders). Þar á meðal er geðhvörf I, geðhvörf II, efna/lyfja-inntöku orsökuð geðhvörf og hringlyndisröskun.

Geðhvörf I (e. bipolar I disorder) einkennist fyrst og fremst af einni eða fleiri geðhæðum (e. manic episode) og geðlægð (e. major depressive episode) inn á milli. Einkenni eins og mikilmennskubrjálæði og ofsóknarhugmyndir eru til staðar þegar geðhæð er í hámarki. Þegar einstaklingarnir eru í geðhæð telja þeir sig oft ósigrandi og finnast þeir búa yfir óþrjótandi orku til að sigra heiminn. Þeir svífa um í hæðstu hæðum oflætisins. Geðhæð er ótrúlega ólík á milli einstaklinga því einkennin eru ekki alltaf þau sömu og fólk sýnir mismörg einkenni. Iðulega þarf að leggja fólk með geðhvörf I inn á geðdeildir í langan tíma til að ná því niður úr oflætinu, sem oft hefur varað lengi og hefur jafnvel valdið líkamlegu tjóni.

Geðhvörf II (e. bipolar II disorder) fela alltaf í sér að minnsta kosti eina hypomaníu/væga oflætislotu (e. hypomanic episode) og eina þunglyndislotu,  lýsir sér með meira og langvarandi þunglyndi en hjá fólki með geðhvörf I. Inn á milli upplifa þessir einstaklingar stutt og oft væg oflætistímabil (e. hypomanic episode). Í geðhvörfum II er algengt að fólk upplifi þunglyndiseinkenni samtímis hypómaníu og birtingarmynd þess getur verið þunglyndi með aukinni orku og pirring sem er mjög erfitt og jafnvel hættulegt ástand.

Hringlyndi/Hverfilyndi (e. cyclothymic disorder). Í þessum flokki eru þeir sem kallast „rapid cyclers“. Þeir sem fá vægar og örar geðsveiflur, sem vara í stuttan tíma. Þetta er fólkið sem fær oft frábærar hugmyndir, byrjar á stórum verkefnum af krafti en klárar þau aldrei. Fólkið sem þarf stöðugt að vera á ferðinni. Fólkið sem kemur geysimiklu í verk á skömmum tíma en dettur svo niður inn á milli, án þess þó nokkurn tíman að missa dómgreind eða upplifa slæmt þunglyndi eða sturlunarkennt oflæti. Þessir einstaklingar eru oft ranglega greindir með persónuleikatruflanir. Stendur yfir í a.m.k. tvö ár.

Efna/lyfja-inntöku orsökuð geðhvörf (e. substance/medication induced depressive disorder) er svolítill jaðarhópur. Hér er um að ræða fólk sem er oft þunglynt og er t.d. á þunglyndislyfjum sem kemur því í oflætisástand. Stundum geta jafnvel steralyf eins og cortisone komið fólki upp í geðhæð eða oflæti. Einnig getur fólk sem er ranglega greint þunglynt og sett er á þunglyndislyf skotist upp í oflæti. Lyndisraskanir eru óumflýjanlegir fylgifiskar neyslu, og geta örvandi og róandi lyf haft þar áhrif.

Einkenni geðhvarfa

Oflæti/geðhæðarlota (e. manic episode)

Geðslag hækkar og einstaklingurinn finnur fyrir mikilli líkamlegri og andlegri vellíðan. Hins vegar er þol fyrir áreiti lítið og getur mikil ánægja og gleði skyndilega breyst í æsing og reiði. Einstaklingurinn getur orðið yfirþyrmandi, átt erfitt með að hlusta á aðra og þola afskipti annara. Sjálfsstjórn minnkar og duldar hvatir koma fram til dæmis geta kynhvöt og árásarhvöt orðið sýnilegri. Honum líður eins og hann eigi heiminn og að ekkert geti breytt hamingju hans. Svefnþörf minnkar og stundum er tilhlökkunin svo mikil að vakna að sjúklingurinn fær alls ekki fest svefn.

Eftir því sem líður á veikindin eykst bil á milli veruleika hans og raunveruleikans. Dagdraumar verða hluti af raunverulegum atburðum. Einstaklingurinn bókstaflega lifir í eigin hugarheimi þar sem allt snýst um að innstu vonir hans og þrár rætist. Hann er ofvirkur, dómgreind hans er brostinn og óraunhæf bjartsýni ríkir. Hugsanir eru hraðar, hann talar stöðugt, veður úr einu í annað og skeytir lítið um samhengi. Oft telur hann sig komast í beint samband við æðri máttarvöld, frægt fólk, fjölmiðla eða áhrifamenn. Algengt er að einstaklingurinn tengi óskylda atburði við eigin persónu, t.d. geta fréttir í fjölmiðlum eða atburðarás í kvikmynd haft persónulegan boðskap eða tákn til hans. Honum getur einnig fundist einhverjir aðilar vera með samsæri gegn sér. Hvers kyns orðaleikir og ímynduð skilaboð eru algeng og er því ómögulegt að vita hvernig sjúklingurinn túlkar umhverfi sitt. Minnstu smáatriði geta leikið lykilhlutverk í einkatilveru sjúklingsins. Hann getur trúað því að náttúrulögmál taki ekki til hans, til dæmis haldið því fram að hann sé óháður þyngdarlögmálinu. Vegna ranghugmynda getur hann farið sér að voða með því að stökkva út úr bíl á ferð eða ganga út um glugga á háhýsi.

Einstaklingar í oflæti hafa iðulega háar hugmyndir um sjálfa sig. Þeir hleypa af stokkunum stórbrotnum verkefnum og eru mjög sannfærandi við að fá annað fólk í lið með sér. Fæst þessara verkefna komast þó í höfn vegna veikinda sjúklingsins. Oflætið getur einnig haft skaðleg áhrif á félagslega stöðu einstaklingsins, meðal annars valdið erfiðleikum í hjónabandi og fjölskyldulífi, valdið fjárhagstjóni og leitt til ofneyslu áfengis og annara vímuefna.

Oflæti í langan tíma getur leitt til þess að sjúklingurinn örmagnist sem getur verið lífshættulegt. Án meðferðar getur oflæti varað í nokkrar vikur eða mánuði. Eftir að það gengur niður getur sjúklingurinn náð eðlilegu ástandi en hætta er á að hann sveiflist aftur upp eða taki dýfu niður á við. Hjá sumum varir jafnvægisástandið í nokkrar vikur eða mánuði, en hjá öðrum geta liðið mörg ár þar til næsta stóra sveifla bærir á sér.

Oft getur reynst erfitt að koma sjúklingi í alvarlegu oflætisástandi á sjúkrahús. Ástæðan er einföld. Sjúklingnum líður vel í sínum hugmyndaheimi þar sem allt gengur honum í haginn og ekkert amar að. Viðkomandi á bágt með að átta sig á því að hann er veikur. Vellíðan og drift oflætis á vissu stigi má líkja við áhrif örvandi vímuefna.

Þunglyndi (e. depressive episode)

Einkenni þunglyndis hjá einstaklingi með geðhvörf er þau sömu og annara einstaklinga með þunglyndi. Hversu alvarlegt þunglyndið verður er breytilegt eftir einstaklingum, líkt og með oflætið. Algeng einkenni þunglyndisins eru meðal annars hugsanadeyfð, daprar hugsanir, sektarkennd, hryggð, kvíði, vanmat á eigin getu, framtaksleysi, skortur á lífskrafti, svartsýni og uppgjöf. Sjúklingurinn dregur sig iðulega út úr félagslegum samskiptum, hann sinnir ekki áhugamálum og vinnan verður kvöl. Sumir verða hamlaðir í hreyfingum, segja fátt og svipmót þeirra lýsir skorti á tilfinningalegum viðbrögðum eða kvöl. Aðrir geta orðið órólegir og eirðarlausir, stöðugt á iði og núandi hendur sínar. Einbeiting þverr og minnið daprast. Hugsanir snúast oft um dauðann, sjálfsvíg og annað þvíumlíkt. Minimáttarkennd og sektarkennd eru algengar og sjúklingurinn kennir sjálfum sér um ömurlegt ástand sitt. Í þessu ástandi fá sumir sjúklingar þá ranghugmynd að þeir séu haldnir einhverjum ólæknandi líkamlegum sjúkdómum, eða jafnvel trúa því að þeir séu orsök alls ills í fjölskyldu sinni eða þjóðfélaginu.

Líkamleg einkenni þunglyndis geta verið mörg. Í sumum tilfellum minnkar matarlyst sem leiðir til þyngdartaps. Í öðrum tilfellum leitar sjúklingurinn í mat og þyngist. Kynlífslöngun getur minnkað eða horfið. Tíðarblæðingar kvenna geta orðið óreglulegar eða stöðvast. Svefn raskast, sjúklingar sofa annað hvort mjög mikið eða lítið sem ekkert. Dægursveiflur eru algengar, til dæmis getur þunglyndið oft verið verst á morgnana en lagast er líður á daginn og stundum er líðanin jafnvel orðin ásættanleg á kvöldin.

Hægt er að fá aðstoð vegna geðhvarfa m.a. á heilsugæslum. Fleiri úrræði á Suðurnesjum má finna hér og fleiri úrræði á Höfuðborgarsvæðinu má finna hér.