Geðklofi

Geðklofi (e. schizophrenia) hefur ekki einfalda greiningu heldur samanstendur hún af hegðun og einkennum sem hafa verið til staðar meirihluta eins mánaðar, jafnhliða því að ákveðnir þættir hafa verið til staðar í allt að sex mánuði. Hér er aðallega verið að vísa í skerðingu á félagslegum og starfstengdum þáttum.

Einkenni geðklofa ná til fjölda tilfinningalegra og hugrænna þátta þ.m.t. skynjunar, afleiðuhugsunar, tungumáls, samskipta, hegðunarstjórnunar, og talmáls, flæði og sköpun hugsunar, ákvarðanatöku, virkni og eftirtektar. Greining tekur mið af heildarmynd á ástandi einstaklings auk viðmiða um hve hamlandi einkennin sem fram koma eru hvað varðar félagstengsl og atvinnumöguleika.

Í ljósi þess hve birtingarmynd geðklofa er margþætt og mismunandi eftir einstaklingum er hægt að líta á geðklofa sem sjúkdómsheilkenni, sem þýðir að einkennin eru margvísleg og einstaklingsbundin. Dæmigerð einkenni geðklofa geta komið fram í öðrum geröskunum, svo sem eins og ranghugmyndum í oflætiskasti geðhvarfa sjúklings og erfiðleikum með tilfinningatengsl þess sem er þjakaður af þunglyndi.

Einkenni geðklofa má skipta í tvo flokka, jákvæð einkenni og neikvæð einkenni. Jákvæð einkenni eru þau einkenni sem eru til staðar og neikvæð einkenni eru þau einkenni sem skortir.

Helstu einkenni geðklofa eru:

 • Jákvæð einkenni:
  • Ofskynjanir
  • Haldvillur
  • Skipulagslaust tal
  • Einkennileg hegðun
 • Neikvæð einkenni:
  • Deyfð
  • Skapleysi/tilfinningaleg flatneskja
  • Framkvæmdaleysi
  • Ánægjuleysi
  • Sinnuleysi
  • Lítil félagstengsl
  • Lítið tal
  • Lítil samskipti
  • Áhugaleysi
  • Einbeitingaleysi
 • Önnur einkenni:
  • Ósamhæfni hreyfinga, stífni í hreyfingum og jafnvel stjarfi
  • Hreyfingar stuðla ekki að því að einstaklingur framkvæmi það sem hann ætlaði eða átti að gera
  • Fælni og ofsahræðsla gagnvart umhverfinu
  • Einbeitingarleysi
  • Viðvarandi kvíði
  • Þunglyndi
  • Sjálfsvígsatferli
  • Líkamleg vanhirða
  • Hreinlæti bæði líkamlegu og nánasta umhverfi verður verulega ábótavant

Hafa ber í huga að við greiningu á geðklofa þá hefur alvarleiki hegðunar eða hugrofsins veruleg áhrif á greiningu, þar sem t.a.m. getur nægt að einstaklingur fái alvarlegar ofskynjanir (sem eru ekki tilkomnar vegna neyslu (eiturlyfja) til að vera greindur með geðklofa.

Sjúkdómurinn hefst að meðaltali rétt eftir tvítugt hjá körlum og rétt fyrir þrítugt hjá konum. Stundum hefst sjúkdómurinn með látum, alvarlegu kasti, en í flestum tilfellum er aðdragandi að fyrsta kastinu til staðar. Þetta sést oft ef litið er til baka. Einkenni eins og það að draga úr félagslegu samneyti, missa áhuga á skóla eða vinnu, minnkað hreinlæti, óvenjuleg hegðun og reiðiköst, geta verið mælistikur á þróun sjúkdómsins. Það er þó oft ekki fyrr en virkir þættir koma fram í hegðun einstaklingsins að hægt er að festa fingur á að viðkomandi sé með geðklofa.

Því miður er geðklofi kannski sú geðröskun sem helst verður fyrir neikvæðum viðbrögðum í samfélaginu. Almenningur virðist oft halda að fólk með geðklofa sé ofbeldishneigt, en rannsóknir sýna að tíðni slíkrar hegðunar er ekki meiri heldur en gengur og gerist á meðal almennings. Hins vegar er einstaklingum sem þjást af geðklofa hættara við sjálfsvígi og þó sérstaklega ungum karlmönnum, en almennt gerist.

Á undanförnum árum hefur náðst verulegur árangur í meðferð fyrir einstaklinga með geðklofa. Meðferð stuðlar að bættum lífsgæðum til handa einstaklingum með geðklofa. Hún miðar oft að því að ná tökum á einkennum sjúkdómsins auk þess sem mikið kapp er lagt á að viðhalda tengslaneti við aðstandendur og vini.

Hægt er að fá aðstoð vegna geklofa m.a. á heilsugæslum. Fleiri úrræði á Suðurnesjum má finna hér og fleiri úrræði á Höfuðborgarsvæðinu má finna hér.