Persónuleikaraskanir

Yfir 10 skilgreindar persónuleikaraskanir eru til. Persónuleikaraskanir (e. personality disorders) eiga það sameiginlegt að vera viðvarandi mynstur innri reynslu og hegðunar sem er verulega frábrugðin væntingum þess samfélags sem einstaklingurinn býr í. Þessi frávik eru öfgakennd og ósveigjanleg, hefjast oft í lok barnæsku og upphafi táningsáranna og valda togstreitu eða hömlum í lífsgæðum viðkomandi. Ekki er hér átt við einstaka tilfelli árekstra milli einstaklingsins og umhverfis hans, heldur viðvarandi mynstur yfir lengri tíma.

Tíðni þeirra sem eru með persónuleikaröskun er 11% á Íslandi sem er sambærilegt og víða í Evrópu.

Hægt er að orða persónuleikaraskanir á annan og almennari hátt: Um persónuleikaröskun er að ræða þegar viss skapgerðareinkenni eru farin að víkja verulega frá viðteknum umgengnisvenjum í samfélaginu og hafa truflandi áhrif á annað fólk og aðlögun viðkomandi einstaklings.

Þar sem nokkrar tegundir persónuleikaraskana eru til, geta einkennin verið mjög mismunandi. Helstu einkenni eru þó þessi:

  • Óstöðug yfirborðsleg tilfinningatengsl sem einkennast oft af upphafningu eða lítilsvirðingu
  • Rofin sambönd við fólk
  • Hræðsla við höfnun
  • Óstöðug sjálfsmynd, lélegt sjálfsmat/sjálfstraust
  • Hvatvísi og sjálfskaðandi hegðun
  • Sveiflukennd og óstöðug hughrif/geðhrif
  • Viðvarandi tilfinning um tómleika
  • Skapofsaköst og erfiðleikar við að stjórna skapi
  • Áhrifagirni og tilhneiging til að eigna sér hugmyndir annarra

Þó að miðað sé við að persónuleikaraskana verði fyrst vart á unglingsárunum ber að varast að hlaupa að slíkum ályktunum. Breytt hegðun ungmenna getur stafað af mörgum öðrum þáttum t.a.m. missi mikilvægrar persónu í lífi ungmennisins. Þrátt fyrir að persónuleikaraskana geti orðið vart snemma á ævi einstaklings þá há þær ekki viðkomandi í mörgum tilfellum fyrr en síðar á lífsleiðinni.

Persónuleikaraskanir reyna oft verulega á nánustu ættingja og vini. Því er ekki síður mikilvægt fyrir þá að leita sér aðstoðar fagaðila um það hvernig þeir geta tekið á þeim aðstæðum sem upp koma í samskiptum.

Hægt er að fá aðstoð vegna persónuleikaraskana m.a. á heilsugæslum. Fleiri úrræði á Suðurnesjum má finna hér og fleiri úrræði á Höfuðborgarsvæðinu má finna hér.