Átraskanir

Átraskanir (e. eating disorders) einkennast af alvarlegum truflunum á matarvenjum, og truflun á tilfinningum og atferli varðandi át með líkamlegum einkennum.

Átraskanir þróast oftast í kjölfar megrunarkúra þar sem fólk ætlar í fyrstu að losa sig við nokkur kíló eða fer hreinlega í öfgakennda megrun með því að svelta sig eða losa sig við mat á annan hátt. Slíkir kúrar geta endað í vítahring þar sem einstaklingnum finnst hann aldrei nógu léttur og missir sjónar á hvað er eðlileg líkamsþyngd og eðlileg máltíð.

Mataræðið einkennist oft af litlu, einhæfu og fitusnauðu fæði. Einnig getur verið um að ræða alvarlegt ofát, jafnvel í köstum þar sem einstaklingurinn missir stjórn á því magni sem hann borðar en losar sig síðan við fæðuna á eftir. Ofhreyfing eða óhófleg líkamsrækt er algeng átröskunarhegðun.

Átröskunum fylgir andleg vanlíðan, kvíði og þunglyndi og mikil óánægja með líkamlegt útlit. Manneskjan verður heltekin af hugsunum um mat og þyngd og hræðslu við að borða. Átraskanir eru sjúkdómur en ekki hegðunarvandamál og sá sem veikist þarf að fá meðferð.

Einstaklingar með átröskun eru í mismunandi þyngd og með ólíka líkamslögun, það er mikill misskilningur að það sjáist utan á fólki að um átröskun sé að ræða. Lang flestir sem eru með átröskun eru í kjörþyngd og jafnvel yfir kjörþyngd.

Orsakir eru margvíslegar, bæði líffræðilegar og sálfélagslegar og meðferð getur verið margþætt. Ef gripið er nógu snemma inn í sjúkdómsganginn með ráðgjöf og stuðningi má oft hindra að sjúkdómurinn þróist á alvarlegt stig.

Þekktustu átraskanirnar og einkenni þeirra eru:

  • Lystarstol (e. anorexia nervosa). Einstaklingar með lystarstol upplifa mikla hræðslu við að þyngjast, jafnvel þegar þeir eru í undirþyngd og fara gjarnan í stífa megrun eða nota aðrar aðferðir til þess að léttast. Lystarstol hefur alvarleg áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Algengir fylgikvillar eru m.a. hjartsláttartruflanir, beinþynning, vöðvarýrnun og máttleysi, ofþornun, yfirlið, þurr húð og hár og aukinn dúnkenndur hárvöxtur víðsvegar um líkamann. Einnig er algengt að einstaklingar með lystarstol upplifi þynglyndi, kvíða, áráttu- og þráhyggju o.fl.
  • Lotugræðgi (e. bulimia nervosa) er átröskun sem einkennist af endurteknum tímabilum þar sem einstaklingur borðar mjög mikinn mat á stuttum tíma ásamt sterkri tilfinningu fyrir því að vera búinn að missa stjórn á áthegðun. Einstaklingur reynir síðan að losa sig við þær hitaeiningar sem hann hefur innbyrt með því að nota ýmsar endurteknar og óhjálplegar losunaraðferðir til að koma í veg fyrir þyngdaraukningu. Einstaklingar með lotugræðgi eru oft í eða yfir kjörþyngd. Einnkenni eða hegðun sem hægt að koma auga á er t.d. óhóflega mikil líkamsþjálfun, þegar einstaklingur fer reglulega á salernið eftir máltíðir og þegar keyptar eru brennslutöflur eða annað sem einstaklingur notar með það að markmiði að grennast. Lotugræðgi getur leitt til alvarlegs heilsubrests líkt og skemmda í vélinda, hjartsláttartruflana, nýrnasjúkdóma og tannskemmda.
  • Lotuofát/átkastaröskun (e. binge eating disorder) er átröskun sem getur valdið offitu. Einstaklingar upplifa þá endurtekin og stjórnlaus átköst, þá borða þeir mjög mikið magn matar á stuttum tíma. Einstaklingur með lotuofát notar ekki losunaraðferðir til þess að losa sig við matinn sem hann innbyrti. Einstaklingar með lotuofát hafa yfirleitt lágt sjálfsálit og eru ósáttir við útlit sitt. Þeir nota gjarnan mat í þeim tilgangi að líða betur eða fá útrás fyrir neikvæðar tilfinningar. Lotuofát getur haft mikil áhrif á líkamann en það getur leitt til sykursýki, hás blóðþrýstings, hjartasjúkdóma, hækkaðs kólesteróls og ýmissa krónískra verkja.
  • Sumar átraskanir eru “blandaðar” með einkennum bæði frá lystarstoli og lotugræðgi og eru kallaðar óskilgreindar átraskanir.
    • Orthorexía er ein gerð af ótilgreindum átröskunum. Orthorexíu má lýsa sem þráhyggju fyrir hollu og hreinu mataræði. Einstaklingar með orthorexíu verða oft helteknir af ákveðnu mataræði og gæðum matarins, þeir leggja mikið upp úr því að undirbúa máltíðir og oft myndast ákveðin mynstur í áthegðun. Ólíkt einstaklingum með lystarstol eða lotugræðgi eru einstaklingar með orthorexíu ekki eingöngu með það markmið að grennast og léttast, þó svo það geti vissulega verið tilfellið, heldur er markmiðið oft að reyna að hámarka líkamlega heilsu og vellíðan en það fer út í öfgar.

Hægt er að fá aðstoð vegna átraskana m.a. á Landspítalanum (fullorðnir, börn). Fleiri úrræði á Suðurnesjum má finna hér og fleiri úrræði á Höfuðborgarsvæðinu má finna hér.