Aðstandendur

Að vera aðstandandi getur verið streituvaldandi, falið í sér mikla óvissu og vakið upp margar erfiðar tilfinningar. Það er mikilvægt að átta sig á því að sem aðstandandi áttu rétt á þínum eigin tilfinningum og hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar eru þær allar eðlilegar.

Alvarleg veikindi hafa alltaf áhrif á fjölskyldu, vini og kunningja. Fjölskylda sjúklings kann að upplifa minnimáttarkennd, vanmátt og skömm gagnvart öðru fólki, jafnvel höfnunartilfinningu. Sjúkdómurinn veldur auknu álagi á heimilislífið og auknum áhyggjum. Þetta ásamt mörgu öðru er ástæða þess að fjölskylda sjúklingsins ætti að leita sér faglegrar hjálpar til þess að skilja betur eðli og hegðun sjúkdómsins. Sú hjálp auðveldar glímuna við sjúkdóminn og afleiðingar hans.

Þegar vinur eða fjölskyldumeðlimur veikist er auðvelt að týna sér í því að reyna að hjálpa viðkomandi. Þú upplifir jafnvel að öll þín orka fari í viðkomandi á kostnað þinna eigin tilfinningaþarfa. Þetta getur leitt til gremju, þunglyndis, kulnunar og jafnvel annarra líkamlegra kvilla. Það er erfitt að vera til staðar fyrir einhvern annan eða njóta  samvista við aðra þegar þú ert uppgefinn og streita nær yfirhöndinni. Orðatiltækið að setja súrefnisgrímuna á sig fyrst eins og í flugvélunum á vel við í þessu sambandi. Mikilvægt er að hugsa vel um sjálfan sig fyrst og fremst.

Sem aðstandandi getur verið gott og jafnvel nauðsynlegt að ræða sína eigin líðan við fagaðila eða einhvern sem maður treystir. Það á ekki að bera sína líðan saman við líðan þess sem er veikur. Álagið, streitan og tilfinningarnar sem fylgja því að vera aðstandandi eru oft tilefni til þess að leita sér aðstoðar.

Hér getur þú lesið meira ef þú ert aðstandandi einstaklings með geklofa, geðhvörf eða þunglyndi.