Starfsemin

Björgin – Geðræktarmiðstöð Suðurnesja er endurhæfingarúrræði og athvarf fyrir fólk með geðheilsuvanda. Allir eru velkomnir að koma og fá ráðgjöf. Starfsfólk veitir frekari upplýsingar um leiðir og úrræði sem standa til boða, innan sem utan Bjargarinnar. Björgina má sækja á eigin forsendum eða með tilvísun.

Einstaklingar sem sækja Björgina þurfa að greiða 2000 kr. í mánaðargjald. Með því er verið að greiða fyrir aðstöðu og þjónustu Bjargarinnar. Hægt er að greiða með posa, reiðufé eða leggja inn á reikning Bjargarinnar.

Markmið Bjargarinnar eru:
– Að rjúfa félagslega einangrun.
– Að efla sjálfstæði einstaklinga.
– Að auka samfélagsþátttöku einstaklinga.
– Að draga úr stofnanainnlögnum.
– Að auka þekkingu almennings á geðheilbrigðismálum.
– Að þjálfa einstaklinga í atvinnutengdri hegðun og endurhæfa þá til náms eða út á vinnumarkað.

Þjónusta

Þjónusta Bjargarinnar skiptist í tvær leiðir, athvarf og endurhæfingu.

Endurhæfing miðar að því að gefa einstaklingum tækifæri til að efla færni sína á ýmsum sviðum. Boðið er upp á námskeið, hópastarf, fræðslu og ráðgjöf þar sem lögð er áhersla á að auka þekkingu og vitund einstaklingsins á uppbyggilegum málefnum sem stuðla að bata hans. Allir sem eru í endurhæfingu í Björginni fá ráðgjafa sem heldur utan um þeirra endurhæfingu með þeim. Viðkomandi fær aðstoð við að sækja um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins og gerð er endurhæfingaráætlun. Í endurhæfingaráætlun kemur fram í hverju endurhæfing viðkomandi mun felast en þar á meðal eru hópatímar tvisvar í viku, regluleg viðtöl hjá ráðgjafa og einhvers konar virkni yfir daginn. Gerð er krafa um 80% mætingu í endurhæfingu.

Einstaklingar sem þess óska geta sótt Björgina án þess að taka markvisst þátt í dagskrá. Sú leið kallast athvarf og er þar helsta markmiðið að rjúfa félagslega einangrun. Félagsleg samvera er mikilvægasti þáttur athvarfsins og í raun grunnur að frekari endurhæfingu. Samveran á sér bæði stað innan Bjargarinnar og annars staðar úti í samfélaginu. Skipulagðar ferðir, samverustundir og húsfundir eru haldnir reglulega, auk ýmissa mismunandi viðburða. Í Björginni er lögð áhersla á að hver og einni skipti máli.

Saga

Björgin hóf starfsemi sína í húsnæði Sjálfsbjargar að Fitjabraut 6c þann 4. febrúar 2005. Starfsemin hófst sem samstarfsverkefni Reykjanesbæjar, svæðisskrifstofu málefnum fatlaðra á Reykjanesi og Sjálfsbjargar á Suðurnesjum. Starfsemin hefur einnig hlotið víðtæks samfélagslegs stuðnings frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum, en sá stuðningur er afar mikilvægur.

Í byrjun árs 2008 samþykkti Félags- og tryggingamálaráðuneytið, öll sveitarfélögin á Suðurnesjum og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að koma að rekstri Bjargarinnar. Með tilstuðlan þess stuðning voru ráðnir tveir starfsmenn í Björgina í tvö 100% stöðugildi. Björgin hefur á þessum árum sem liðin eru frá opnun vaxið hratt og var upprunalega húsnæðið sprungið utan af starfseminni. Aukinn stuðningur við Björgina varð til þess að starfseminni var komið í stærra húsnæði við Suðurgötu 12 og 15. Um er að ræða tvö húsnæði sem standa til móts við hvort annað. Í kjölfar flutninga varð mögulegt að þjónusta með enn betri hætti þann breiða hóp sem nýtir sér þjónustu að einhverju tagi í Björginni.